Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra hefur ákveðið að opinberir háskólar fái ekki heimild til að hækka skrásetningargjöld líkt og skólarnir sendu ráðuneytinu erindi um. Skólarnir höfðu óskað eftir heimild til að hækka gjöldin úr 75.000 krónum í 95.000 krónur. Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins.

Skrásetningargjaldið er helsta leið opinberu háskólanna til að afla sér tekna umfram fjárveitingar á fjárlögum. Gjaldinu var síðast breytt árið 2013, þegar það hækkaði um 15 þúsund annað árið í röð, og hefur því staðið óbreytt í 75 þúsund krónum í áratug.

Á föstu verðlagi verður skráningargjald næsta árs því rétt tæpum þriðjungi lægra en árið 2014, þegar það jafngilti yfir 106 þúsund krónum á verðlagi dagsins í dag samanborið við um 72 þúsund á næsta ári, gangi verðbólguspár eftir. Gjaldið mun þá aðeins hafa verið lægra á tveimur árum frá aldamótum, 2011 og 2012, en á næstu tveimur árum var gjaldið svo hækkað um 57% að raunvirði.

Frá aldamótum hefur gjaldið að meðaltali verið 91 þúsund krónur en sveiflast gríðarlega milli tímabila, eins og sjá má á grafinu hér að neðan.

Stúdentahreyfingar háskólanna hafa barist fyrir því að umrætt skrásetningargjald verði ekki hækkað. Raunar hafa þær einnig sett spurningarmerki við lögmæti skrásetningargjaldsins.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að fjárframlög til háskóla hafi hækkað og árið 2024 nemur aukningin frá fyrri áætlunum um 3,5 milljörðum króna. Til ársins 2028 sé gert ráð fyrir 6 milljarða króna aukningu fjárframlaga til háskólastigsins.

„Háskólanemar eru í hópi þeirra sem eru annað hvort nýkomin út á húsnæðismarkaðinn eða eru í þeim sporum að reyna að koma þaki yfir höfuðið,” segir Áslaug Arna í tilkynningunni.

„Sá munur er einnig á háskólanemum á Íslandi og í nágrannaríkjunum að stærri hluti þeirra á ung börn og er að stíga sín fyrstu skref í að hlúa að fjölskyldu. Háir vextir, erfiðleikar með leikskólapláss og ýmsar aðrar aðstæður efnahagslífsins bitna nú a háskólanemum í þeim mæli að mikilvægt er að opinberir aðilar auki ekki á útgjöld þeirra.”

Áslaug bætir við að mikilvægt sé fyrir opinbera háskóla að sýna aðhald í rekstri ásamt því að finna leiðir til að sækja fram og auka gæði náms án þess að hækka skrásetningargjöld.

Hefði skilað HÍ yfir 200 milljónum

Í febrúar 2023 voru 14.167 nemendur skráðir í Háskóla Íslands. Sé miðað við að allir nemendur skólans greiði skrásetningargjald myndi hækkun gjaldsins skila skólanum 283 milljónum króna á ári. Nemendur með verulega fötlun greiða lægra gjald og alþjóðlegir skiptinemar, sem voru í kringum 500 á þar síðasta skólaári, fá undanþágu frá gjaldinu.

Jafnvel þó tekið sé tillit til þessara þátta má gera ráð fyrir að hækkunin hefði skilað HÍ yfir 200 milljónum króna á ári.

Auk HÍ gilda lög um opinbera háskóla um Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólann á Hólum.