Kringlan er fyrsta verslunarmiðstöð í heiminum til að gera viðskiptavinum kleift að vera með eitt gjafakort fyrir alla verslunar – og þjónustuaðila Kringlunnar. Þessi nýja fjártæknilausn frá Leikbreyti gerir viðskiptavinum mögulegt að vera með gjafkortið í veskinu í símanum og sjá þar raunstöðu, fá áminningar um að nota kortið og því minni hætta á fjármunir viðskiptavina Kringlunnar glatist.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem segir að innleiðing á Gift-to-wallet kerfi félagsins fyrir utanumhald, sölu og rekstur gjafakorta Kringlunnar sé sú stærsta sem félagið hafi gert hingað til.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-,iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tók formlega við fyrsta gjafakortinu í dag og fór í snyrtivörudeild Hagkaups og verslaði með nýju gjafakorti Kringlunnar.

„Helsti kostur kerfisins er að hægt er að selja og gefa út gjafakortin rafrænt að fullu án þess að viðskiptavinir þurfi að bæta við nýju smáforriti í símann sinn þar sem gjafakortin fara beint í Apple eða Google Wallet. Kerfið er því mun umhverfisvænna þar sem það dregur úr útgáfu plastkorta og umbúða sem áður einkenndu gjafakort. Eins opnar þetta á ný markaðstækifæri fyrir Kringluna til að koma skilaboðum til korthafa um t.d. lengri opnunartíma, viðburði í Kringlunni og áminningar um að nota kortið þegar styttist í að gildistími kortsins ljúki,“ segir í fréttatilkynningu.
Rafrænu gjafakortin hafi marga kosti bæði fyrir korthafa sem og Kringluna en nú geti korthafar fylgst með inneign á gjafakorti í símanum. Eins haldi kerfið utan um uppgjör við verslanir og gefi Kringlunni raunstöðu um ónotuð kort og innlausn, sem gefi góða yfirsýn.
Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar:
„Innleiðing kerfisins er hluti af þeirri stafrænu vegferð sem Kringlan er á og hefur verið í og er þetta mikilvægur þáttur, það sem heillaði okkur ekki síst við Gift to wallet var hvernig það skapar ný markaðstækifæri fyrir Kringluna í samanburði við fyrri lausnir.“
Yngvi Tómasson, framkvæmdarstjóri Leikbreytis:
„Við erum afar þakklát fyrir það traust sem Kringlan sýnir Leikbreyti og Gift to wallet lausninni með stærstu innleiðingu okkar til þessa. Erlend stórfyrirtæki og verslunarmiðstöðvar hafa verið að sýna lausninni áhuga undanfarið. Kostirnir eru fjölmargir og við spáum meiri ánægju viðskiptavina sem og aukningu á gjafakortsölu í Kringlunni. Ég lýt á uppsetninguna sem byltingu í Íslenskri greiðslumiðlun.“
„Mörg af stærstu verslunarfyrirtækjum landsins hafa valið lausn Leikbreytis Gift to Wallet til að halda utan um gjafakort sín en lausnin hentar bæði fyrir verslanir og verslanamiðstöðvar. Lausnin gerir verslunum og þjónustuaðilum kleift að gefa út gjafakort, vildarkort, inneignakort, beiðnir og starfsmannakort bæði á hefðbundin hátt í prenti og í Apple og Google Wallet. Með kortunum er hægt að greiða fyrir vörur í verslun þar sem kerfið er samþáttað helstu vefverslunarkerfum og afgreiðslukerfum,“ segir að lokum í fréttatilkynningu Leikbreytis.