Afríkuríkið Lesótó hefur lýst yfir neyðarástandi vegna hás atvinnuleysis meðal ungs fólks og atvinnumissis í landinu. Á vef BBC segir að óvissa um tolla frá bandarískum stjórnvöldum hafi aðeins bætt gráu ofan á svart.
Lesótó varð fyrir hæstu tollaálagningu af öllum Afríkuþjóðum en Donald Trump lagði 50% tolla á landið í apríl sem voru síðan frestaðir.
Nthomeng Majara, varaforsætisráðherra Lesótó, segir að neyðarástandið verði í gildi til 30. júní 2027. Yfirlýsingin er í samræmi við staðbundin lög sem heimila ríkisstjórninni að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að lágmarka neikvæð áhrif.
Atvinnuleysi í Lesótó er um 30% en rúmlega helmingur ungmenna í landinu er án vinnu. Um tvær milljónir búa í Lesótó og segja stjórnvöld að aðgerðirnar hafi það markmið að beina fjármagni til verkefna sem gætu hjálpað hagkerfinu og ungu fólki að fá vinnu.
Nokkur ráðuneyti í landinu hafa þegar greint frá aðgerðum, þar á meðal að fella niður skráningargjöld fyrir lítil og meðalstór sprotafyrirtæki.