Auður Björgólfs Thors Björgólfssonar er metinn á 1,0 milljarða dala samkvæmt nýjum auðmannalista Forbes. Áætluð auðæfi Björgólfs minnkuðu um 1,1 milljarð dala, eða hátt í 150 milljarða króna, frá listanum sem Forbes gaf út í fyrra en þá var auður hans metinn á 2,1 milljarð dala.
Forbes birti í morgun hinn árlega auðmannalista sem viðskiptamiðilinn er hvað þekktastur fyrir. Að þessu sinni nær listinn yfir 3.028 einstaklinga sem eru metnir á einn milljarð dala eða meira. Auðæfi þeirra eru samtals metin á 16,2 þúsund milljarða dala.
Björgólfur, sem er eini Íslendingurinn sem Forbes metur á yfir einn milljarð dala, hefur verið fastagestur á listanum undanfarinn áratug. Hann situr í sæti nr. 2.933 á listanum í ár.
Auður hans, samkvæmt Forbes, fór hæst upp í 2,5 milljarða dala á árunum 2022 og 2023. Viðskiptamiðilinn hefur hins vegar fært niður áætluð auðæfi hans niður um 1,5 milljarða dala, eða um liðlega 200 milljarða króna, á síðustu tveimur árum.
Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs, hefur byggt upp tvö af stærstu fjarskiptafyrirtækjum Síle og Kólumbíu undir merkinu WOM. Fyrirtækin sóttu bæði um greiðslustöðvun í apríl 2024 en háir vextir og erfiðleikar í Covid-faraldrinum gerðu félögunum erfitt fyrir. Kröfuhafar eignuðust nýlega WOM í Síle og hópur fjárfesta hefur lagt kólumbíska fjarskiptafélaginu til nýtt fjármagn.
Björgólfur á í gegnum Novator eignarhluti í fjölda sprota- og vaxtarfyrirtækja, þar á meðal fjártæknifyrirtækinu Stripe og tæknibrellufélaginu DNEG. Þá hefur Viðskiptablaðið fjallað um fjárfestingu hans í Better Mortgage en markaðsvirði félagsins lækkaði umtalsvert við krefjandi skráningu sumarið 2023.