Leikstjórinn og framleiðandinn Bjarni Haukur Þórsson og sænskt framleiðslufyrirtæki hans, Thorsson Produktion AB, hefur keypt kvikmynda- og sjónvarpsréttinn að bókum Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, og hyggst hann framleiða þætti um hana, líklegast á ensku, og verða þeir teknir upp að hluta á Skotlandi og Írlandi.
Takmarkið er að framleiða alþjóðlega sjónvarpsþáttaröð um sögu landnámskonunnar byggða á þríleik Vilborgar, bókunum Auður,Vígroði og Blóðug jörð. Þær hafa verið með söluhæstu bókum undanfarin ár og sú fyrsta tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Varpa ljósi á samtímann þó gerist fyrir 1100 árum
Bjarni Haukur segir verkefnið spennandi enda séu bækur Vilborgar um Auði gríðarlega áhugaverðar og vel skrifaðar.
„Þrátt fyrir að sögurnar gerist fyrir rúmlega ellefu hundruð árum þá varpa þær ljósi á margt sem samtíminn er að glíma við, til dæmis kúgun kvenna, átök vegna ólíkra trúarbragða og stríð sem veldur því að fólk þarf að flýja heimili sín og land í von um að finna öryggi og skjól á nýjum stað," segir Bjarni Haukur.
„Að skoða þessa hluti í gegnum víkingadrama er mjög áhugavert og gefur okkur tækifæri til að sjá samfélag okkar í dag í nýju ljósi. Bækurnar hafa allt, en í grunninn fjalla þær um konu sem rís upp gegn mótbyr og kúgun og sem endar sem einn fremsti landneminn. Þetta er kynslóðin sem lagði grunninn að samfélagi á Íslandi.“
Stórt alþjóðlegt verkefni
Hann segir sjónvarpsþáttaröðina vera mjög stórt alþjóðlegt verkefni og verða þættirnir teknir upp í Skotlandi, á Írlandi og Íslandi.
„Hér er um víkingaseríu að ræða þar sem sagan er sögð út frá sjónarhóli konu. Það hafa verið gerðar svo margar víkingaseríur um karla, nú er komið að því að gera þetta út frá konunni og hver er betur til þess fallin en hún Auður?"
Bjarni segir að þættirnir verði að öllum líkindum teknir upp á ensku, en hann segist ekki geta sagt meira að svo stöddu. „Á þessu stigi málsins get ég ekkert gefið upp um það við hvaða aðila við erum að ræða.”