Auður Elon Musk, for­stjóra Tesla, jókst um 26,5 milljarða Bandaríkja­dali, sem sam­svarar um 3.652 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins, eftir kosninga­sigur Trumps.

Sam­kvæmt Bloom­berg jókst auður ríkustu manna Bandaríkjanna um sam­tals 63,5 milljarða dali í gær.

Langstærstur hluti aukningarinnar kom í formi hluta­bréfa­verðs­hækkana en önnur verðbréf hækkuðu einnig sam­hliða styrkingu bandaríkja­dals.

S&P 500 úr­vals­vísi­talan hækkaði um 2,5% í gær en vísi­talan hefur aldrei hækkað jafn mikið eftir kjör­dag.

Musk, sem var dyggur stuðnings­maður Trump í kosninga­baráttunni, hefur fengið vil­yrði hjá til­vonandi for­seta Bandaríkjanna um að fá opin­bera stöðu í næstu ríkis­stjórn Trump.

Hluta­bréfa­verð Tesla hækkaði um 15% í kaup­höllinni í New York en gengi bíla­fram­leiðandans hefur nú hækkað um 32% á árinu.

Aðrir efnaðir Bandaríkja­menn sem stór­græddu á kosninga­sigri Trump voru meðal annars Brian Armstrong, for­stjóri raf­mynta­kaup­hallarinnar Coin Base.

Auður hans jókst um 30% á einum degi og nam 11 milljörðum dala í gær sam­kvæmt Bloom­berg.