Netflix ætlar frá og með 1. nóvember að byrja að bjóða upp á ódýrari áskriftarleið með auglýsingum. Þetta kemur fram í grein hjá Daily Mail. Félagið hefur þróað áskriftarleiðina í samstarfi við tæknirisann Microsoft.

Netflix hafði áður greint frá áformum um að bæta áskriftarleiðinni við í von um að laða að kostnaðarmeðvitaða neytendur, og ætlaði að opna á hana árið 2023. Streymisveitan hefur hins vegar flýtt áformunum til að bregðast við fækkun notenda.

Áskriftarleiðin mun kosta minna en ódýrasta núverandi áskriftin sem kostar 6,99 pund í Bretlandi og 9,99 dali í Bandaríkjunum. Hún mun hins vegar ekki bjóða upp á þann valmöguleika að hala niður efni eins og hinar áskriftarleiðirnar bjóða upp á. Ted Sarandos, forstjóri Netflix, bætir því við að nýja áskriftarleiðin muni ekki veita notendum aðgang að öllu efni sem er á streymisveitunni.

Disney+, samkeppnisaðili Netflix, ætlar að byrja með áskrift með auglýsingum í Bandaríkjunum þann 8. desember.