Toyota hefur sett sér markmið að framleiða 2,5 til 3 milljónir bifreiða á ári í Kína fyrir árið 2030, samkvæmt heimildum Reuters.
Um væri að ræða 71% aukningu frá framleiðslunni í fyrra upp á 1,75 milljónir bifreiða. Með þessu hyggst Toyota styrkja stöðu sína á stærsta bílamarkaði heims og vinna til baka markaðshlutdeild sem hefur tapast til innlendra framleiðenda á borð við BYD.
Á síðustu árum hafa kínverskir bílaframleiðendur aukið markaðshlutdeild sína á innlendum markaði. Þannig hefur hlutdeild erlendra bílaframleiðenda á kínverskum markaði dregist hratt saman, farið úr 64% á fyrstu átta mánuðum ársins 2020 niður í 37% árið 2024.