Í desember sl. samþykktu hluthafar Vetnisfélagsins Kataness tillögu stjórnar að auka hlutafé félagsins um 8.887.700 að nafnverði með útgáfu nýrra hluta.
Nýir hlutir voru seldir á genginu 100 krónur á hlut og nam söluverð þeirra því um 888,7 milljónum króna. Nýir hlutir voru greiddir með afhendingu á verðmætum öðru en reiðufé. Þannig tekur Vetnisfélagið Katanesi við rekstri verkefnisins „Project Katanes“ sem er í eigu móðurfélags félagsins, Qair Ísland H2 ehf., sem eignast þá hið nýja hlutafé.
Katanes-verkefnið snýst um uppbyggingu rafeldsneytisverksmiðju sem Qair á Íslandi hyggst reisa á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit, og yrði áberandi viðbót við iðnaðarsvæðið.
Til stendur að reisa verksmiðjuna í þremur áföngum og á fyrsti hlutinn að vera gangsettur árið 2028. Annar áfanginn verði tilbúinn árið 2031 og sá þriðji árið 2034, ef nægilegt framboð verður af raforku á samkeppnishæfu verði og uppbygging flutningsmannvirkja raforku verði í samræmi við áætlanir.
Skipulagsstofnun hefur lýst yfir efasemdum um að verksmiðjan geti risið á þeim hraða. Starfsemin sé háð of mörgum utanaðkomandi framkvæmdum. Þegar verksmiðjan verður fullbyggð kemur hún til með að verða langstærsti orkunotandinn á Íslandi.
Qair á Íslandi, sem er dótturfélag hins franska Qair International, var stofnað árið 2018 með það að markmiði að þróa og reka orkuver á Íslandi. Hefur félagið kynnt áform um að reisa níu vindorkuver sem samtals yrðu um 800 MW af afli.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.