Minningarhátíð norðurírskra mótmælenda fer fram yfir þessa helgi og hefst formlega einni mínútu eftir miðnætti í kvöld að staðartíma þegar stuðningsmenn ensku krúnunnar kveikja í stórum brennum um allt land.

Hátíðin ber einfaldlega heitið 12. júlí og með henni eru mótmælendur að minnast sigurs Vilhjálmsmanna á Írlandi við orrustuna um Boyne árið 1690 sem tryggði yfirráð ensku biskupakirkjunnar í konungsríkinu Írlandi.

Samkvæmt hefð er kveikt í stórum brennum að kvöldi til þann 11. júlí en þeir varðeldar tákna eldana sem notaðir voru til að leiða her Vilhjálms af Óraníu til Boyne.

Mótmælendur nota gjarnan tækifærið og skreyta hinar háu viðarpallettur með myndum og dúkkum af pólitískum andstæðingum. Það er einnig algengt að sjá írska fánann í ljósum logum ásamt ógeðfelldum skilaboðum sem beind eru til kaþólikka í landinu.

Ein brenna í ár hefur hins vegar fengið á sig mjög mikla gagnrýni en hún sýndi líkneski af flóttamönnum sem sátu í báti klæddir appelsínugulum björgunarvestum. Kveikt var í brennunni í gærkvöldi og hefur atvikið verið fordæmt af bæði stjórnmálamönnum og leiðtogum innan kirkjunnar.

Atvikið hefur verið fordæmt af bæði stjórnmálamönnum og leiðtogum innan kirkjunnar.
© Skjáskot (Skjáskot)

John McDowell, erkibiskup írsku kirkjunnar, segir að hið umrædda atvik hafi verið rasískt, ógnvekjandi og móðgandi. „Þetta hefur ekkert að gera með kristni eða mótmælendamenningu og er í raun ómannlegt og mjög ókristilegt.“

Hatursáróður færist í aukana

Norðurírski höfundurinn Marisa McGlinchey segir í samtali við Viðskiptablaðið að hátíðin sé mjög oft notuð til koma nútímalegum pólitískum skilaboðum á framfæri og að það að brenna írska fánann eða önnur tákn írskra þjóðernissinna sé ekki nýtt af nálinni.

„Þetta hefur verið að gerast í mörg ár og er mjög eitrað í eðli sínu. Það að brenna kosningaplaköt af fulltrúum Sinn Féin er til dæmis mjög ógeðfellt og það er ótrúlegt að þetta viðhaldist enn þann dag í dag.“

Hún segist hafa séð aukna undirliggjandi andúð á innflytjendum og minnist sérstaklega á bátinn með innflytjendunum sem prýddi varðeldinn í bænum Moygashel í Tyrone-sýslu.

„Þetta er algjört hneyksli og mjög ógnvekjandi fyrir innflytjendur og hræðileg mynd sem allur heimurinn fær að sjá frá Norður-Írlandi. Ég get ekki séð að þetta muni breytast eitthvað á næstu árum. Eðli þeirra virðist vera það sama þrátt fyrir áköll frá leiðtogum mótmælenda sem hvetja til aukinnar fjölbreytni á þessum degi.“

Marisa segir að margir þjóðernissinnar og mótmælendur noti hins vegar hátíðina til að ferðast eitthvert annað, yfirleitt suður til Írlands, til að yfirgefa þá pólitísku spennu sem myndast í þessum mánuði.