Greinendur spá því að sala á rafbílum í Vestur-Evrópu, þar með talið Bretlandi, muni aukast um 40% á komandi ári.

2,7 milljónir rafbíla verða seldar á árinu 2025 samanborið við 1,9 milljónir rafbíla árið áður. Sala á rafbílum stóð í stað á síðasta ári á lykilmörkuðum í Evrópu á sama tíma og yfirvöld í álfunni drógu úr hvötum til rafbílakaupa.

Þá er áætlað að meira en 160 rafbíltegundir standi neytendum til boða á árinu.

Frá og með þessu ári taka gildi hertari útblástursreglur frá Evrópusambandinu sem munu í reynd auka hlutdeild rafbíla á markaðnum. Gera greinendur ráð fyrir því að hlutdeildin verði í kringum 22% á árinu samanborið við á bilinu 15% til 17% á síðasta ári.

Á sama tíma og það er ráðgert að sala rafbíla aukist í Vestur-Evrópu þá er framlegðin sífellt að minnka í ljósi harðrar samkeppni frá kínverskum rafbílaframleiðendum, strangari löggjafar ESB og krafna neytenda um að geta keypt rafbíl á viðráðanlegu verði.