Emmessís hagnaðist um 129 milljónir króna eftir skatta á árinu 2024 samanborið við tæplega 142 milljóna hagnað árið áður.

Stjórn félagsins lagði til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins.

Rekstrartekjur Emessíss jukust um 10% milli ára og námu 1.873 milljónum króna. Rekstrargjöld námu 1.639 milljónum en þar af voru laun og tengd gjöld 410 milljónir. Ársverk voru 36 samanborið við 34 árið áður.

Rekstrarhagnaður ísgerðarinnar fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 3% milli ára, úr 228 milljónum í 235 milljónir.

„Rekstur félagsins var í samræmi við áætlanir ársins. Ytri þættir í rekstrarumhverfi voru áskorun á árinu en þar má telja miklar hækkanir á lykilhráefnum og slakt sumarveður en það tímabil er aðalsölutími félagsins,“ segir í skýrslu stjórnar.

„Afrakstur hagræðingarstarfs og stöðugra umbóta undanfarinna ára vega upp á móti neikvæðum áhrifum af ytri þáttum. Vöruþróun félagsins var öflug á árinu og skilaði góðum árangri og vonast stjórnendur eftir auknum áhrifum af þeirri vinnu inn í næstu misseri.“

Lykiltölur / Emmessís ehf.

2024 2023
Rekstrartekjur 1.873 1.700
EBITDA 235 228
Hagnaður 129 142
Eignir 833 770
Eigið fé 527 548
Ársverk 36 34

Eignir félagsins námu 833 milljónum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 527 milljónir. Emmessís er í eigu 1912 samstæðunnar, sem er í eigu Ara, Bjargar og Kristínar Fenger og fjölskyldu.