Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets um kerfisjöfnuð eru auknar líkur á skerðingum á raforku til ársins 2028 en Landsnet metur stöðu framboðs, notkunar og mögulega veikleika í framtíðarraforkukerfinu.
„Án uppbyggingar í flutningskerfinu og nýjum virkjunum eykst hættan á skerðingum umtalsvert á næstu 5 árum og áhætta á skerðingum á forgangsorku, sem eru umfram heimildir í samningum, eykst með hverju ári,“ segir í skýrslunni.
Samkvæmt greiningu Landsnets er áhætta á skerðingum mest á fyrsta og öðrum ársfjórðungi hvers árs.
Tekið er fram að uppbygging flutningskerfisins muni draga úr líkum á skerðingum til notenda raforku en það eitt og sér muni ekki duga til að tryggja að framboð mæti eftirspurn.
„Virkjanir í núverandi ástandi hafa ekki burði til að anna aukinni raforkunotkun til næstu 5 ára óháð því hversu mikið næst að styrkja flutningskerfið. Virkjun nýrrar orku er nauðsynleg til að snúa þróuninni við. Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir næstu 5 ára halda afl- og orkujöfnuði eingöngu í horfinu. Áhætta er á að líkur á skertri forgangsorku þrefaldist í slæmu vatnsári.“
Með uppbyggingu flutningskerfis og nýjum virkjunum mun ástandið byrja á að versna og rétta svo úr kútnum eftir árið 2026 en líkur eru á að orkuskortur verði meiri árið 2028 en í ár.
„Ekki má sofna á verðinum því að árið 2028 er verra en árið 2024. Áhætta er á að ekki verði hægt að mæta eftirspurn raforku yfir tímabilið 2024 – 2028. Ef framkvæmdir í flutningskerfi og nýjum virkjunum raungerast dregur úr áhættu á skerðingum forgangsorku. Áhætta á skerðingum á forgangsorku eykst í slæmu vatnsári og ef uppbygging flutningskerfis og nýrra virkjana tefst.“
Landsnet segir að staðan verður flókin næstu 12-18 mánuði þar sem vísbendingar eru um að forði uppistöðulóna muni verða nokkurn tímann að rétta úr kútnum eftir óvenjulega þurrt tímabil 2023-2024.
Ofan á það bætist að enn eru nokkur ár í að samtenging flutningskerfis náist á milli landshluta.
„Þetta gerir það að verkum að raforkukerfið má til skemmri tíma ekki við stórum áföllum eins og viðlíka þurru vatnsári eða langri rekstrarstöðvun stærri aflstöðva svo dæmi séu tekin. Svigrúm til viðhaldsstöðvana á þessu tímabili gæti farið minnkandi á meðan komist er yfir erfiðasta hjallann. Huga þarf að fjölbreyttum leiðum til að takast á við hugsanlegar áhættur á skerðingum forgangsorku. Má þar nefna með gagnsæjum verðmerkjum á virkum orkumarkaði, þróun regluverks, sveigjanlega verðlagningu, ráðstafanir til að valdefla neytendur, þátttöku stórnotenda eða nota markaðsaðferðir til að bregðast við,“ segir í skýrslunni.