Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist hafa beðið fjölskylduna sína og nákomna að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Íslandsbanka síðasta sumar. Bjarni segir í samtali við Vísi að hann hafi því ekki átt von á að faðir sinn Benedikt Sveinsson hefði tekið þátt í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut, sem var aðeins opið fagfjárfestum og viðurkenndum gagnaðilum, í síðasta mánuði.

„Ég talaði við mitt fólk fyrir almenna útboðið á bankanum í fyrra og bað þau um að taka ekki þátt í því. Ég tók sjálfur ekki þátt þá eins fram hefur komið og mæltist með því að aðrir í fjölskyldunni gerðu það líka. Það hvarflaði ekki að mér að það myndi gerast í þetta skiptið,“ segir Bjarni við Vísi.

Spurður hvort hann sé búinn að heyra í föður sínum vegna þátttöku hans í útboðinu svaraði Bjarni: „Hvað heldur þú?“ Bjarni vildi að öðru leyti ekki tjá sig um samtal þeirra feðga.

Félagið Hafsilfur ehf., í eigu Benedikts Sveinssonar, fékk 0,1% af úthlutun í útboðinu og greiddi fyrir 54,9 milljónir króna.