Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu hefur verið sakaður um að hafa beðið um ókeypis uppfærslur á fyrsta farrými í persónulegum flugferðum með ástralska flugfélaginu Qantas.

Þetta kemur fram í nýrri bók eftir ástralska blaðamanninn Joe Aston sem fullyrðir að Albanese hafi átt það til að hringja í Alan Joyce, fyrrum forstjóra Qantas, og verið færður á fyrsta farrými í 22 flugferðum milli 2009 og 2019.

Á blaðamannafundi í dag neitaði Albanese að svara því hvort hann hefði áður talað við Joyce um að láta uppfæra sig og sagðist hafa sýnt fullt gagnsæi með allar sínar upplýsingar. Albanese gagnrýnir Aston og segir að hann sé að reyna að selja bókina sína.

Bók Aston, The Chairman‘s Lounge: The Inside Story of How Qantas Sold Us Out, vitnar í núverandi og fyrrverandi starfsmenn Qantas sem sögðu að Albanese hafi hringt í forstjórann til að ræða persónulegar ferðaáætlanir.

Bridget McKenzie, aðstoðarsamgönguráðherra Ástralíu, hefur kallað eftir því að opnað verði fyrir rannsókn til að rannsaka meintar beiðnir Albanese um uppfærslur. Albanese glímir nú einnig við lækkandi fylgi meðal Ástrala, sem eru margir hverjir að glíma við húsnæðiskreppu.