Frigus II, fjárfestingafélag í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, kennda við Bakkavör, og Sigurðar Valtýssonar gerði í dag framvirkan samning um kaup á 0,92% hlut í Origo samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar. Framvirki samningurinn kveður á um kaup á fjórum milljónum hluta í Origo þann 7. september. Ef tekið er mið af markaðsgengi Origo við lokun markaða í dag nemur markaðsvirði hlutarins 275 milljónum króna.
Frigus II á nú þegar 4,25% hlut í Origo, en markaðsvirði hlutarins nemur tæplega 1,3 milljörðum króna. Með samningnum fór félagið yfir 5% hlut í Origo og voru viðskiptin því tilkynningarskyld en samtals á félagið 5,17% hlut undir í Origo með framvirka samningnum.
Ari Daníelsson, stjórnarmaður í Origo og forstjóri eignaumsýslu- og ráðgjafafyrirtækisins Reviva Capital, bætti einnig við hlut sinn í Origo. Hann keypti hluti í félaginu að jafnvirði rúmlega 20 milljónum króna í dag, eða um 300 þúsund hluti á genginu 68,75.