Bain Capital er nú í viðræðum um kaup á lyfjafyrirtæki Mitsubishi Chemical Group en samningurinn gæti hljómað upp á nokkra milljarða dala. Þetta kemur fram á vef WSJ sem vitnar í aðila sem þekkja til málsins.

Þar segir að bandaríski fjárfestingasjóðurinn sé á lokastigi samningaviðræðna um kaup á dótturfyrirtækinu Mitsubishi Tanabe Pharma. Verðmæti samningsins gæti verið í kringum 3,21 milljarð dala.

Japanska viðskiptablaðið Nikkei greindi einnig frá því að Mitsubishi Chemical hefði veitt Bain Capital forgangsrétt á samning um sölu á lyfjafyrirtækinu.

Í yfirlýsingu frá Mitsubishi Chemical segir að fyrirtækið sé að fara í gegnum endurbætur á eignasafni sínu og sé með alla mögulega valkosti í huga, þar á meðal hugsanlega sölu.