Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó, greindi frá því rétt í þessu að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði samþykkt að fresta innleiðingu tolla á mexíkóskar vörur í einn mánuð eftir símtal leiðtoganna.
Þar komust þeir að samkomulagi um að grípa til sameiginlegra aðgerða gegn smygli á fentanýli yfir landamærin.
„Þeir eru að fresta tollum í einn mánuð héðan í frá,“ skrifaði Sheinbaum á X en The Wall Street Journal greinir frá.
Hún sagði að Mexíkó hefði samþykkt að auka landamæraeftirlit sitt með því að senda 10.000 liðsmenn þjóðvarðliðsins til að stemma stigu við eiturlyfjasmygli, sérstaklega fentanýli.
Jafnframt hafi Bandaríkin samþykkt að vinna að því að stöðva smygl á öflugum skotvopnum til Mexíkó.
„Teymi okkar munu hefja störf í dag á tveimur sviðum: öryggi og viðskiptum,“ bætti Sheinbaum við.
Engar fregnir hafa borist um frestun tolla á Kanada en Trump hefur einnig heitið því að leggja tolla á Evrópusambandslöndin.
Þýski kanslarinn Olaf Scholz sagði í dag að Evrópusambandið myndi svara harðlega ef Trump setur tolla á evrópskar vörur. Hann lagði áherslu á mikilvægi frjálsra viðskipta og varaði við neikvæðum áhrifum tollastefnu á báða aðila.
„Ef tollastefna gerir viðskipti erfiðari væri það slæmt fyrir Bandaríkin og slæmt fyrir Evrópu,“ sagði Scholz í Brussel en Financial Times greinir frá.
Hann ítrekaði að ESB væri sterkt efnahagssvæði sem gæti brugðist við með eigin aðgerðum. „Við getum mótað okkar eigin stefnu og svarað tollum með tollum,“ sagði hann.
Scholz bætti við að Evrópa væri efnahagslega öflug og þótt samstarf við Bandaríkin væri áfram í forgangi væri sambandið einnig tengt viðskiptum um allan heim.
„Við getum átt viðskipti við allan heiminn,“ sagði Scholz.