Claudia Shein­baum, for­seti Mexíkó, greindi frá því rétt í þessu að Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, hefði samþykkt að fresta inn­leiðingu tolla á mexíkóskar vörur í einn mánuð eftir sím­tal leið­toganna.

Þar komust þeir að sam­komu­lagi um að grípa til sam­eigin­legra að­gerða gegn smygli á fentanýli yfir landa­mærin.

„Þeir eru að fresta tollum í einn mánuð héðan í frá,“ skrifaði Shein­baum á X en The Wall Street Journal greinir frá.

Hún sagði að Mexíkó hefði samþykkt að auka landa­mæra­eftir­lit sitt með því að senda 10.000 liðs­menn þjóðvarðliðsins til að stemma stigu við eitur­lyfja­smygli, sér­stak­lega fentanýli.

Jafn­framt hafi Bandaríkin samþykkt að vinna að því að stöðva smygl á öflugum skot­vopnum til Mexíkó.

„Teymi okkar munu hefja störf í dag á tveimur sviðum: öryggi og við­skiptum,“ bætti Shein­baum við.

Engar fregnir hafa borist um frestun tolla á Kanada en Trump hefur einnig heitið því að leggja tolla á Evrópu­sam­bands­löndin.

Þýski kanslarinn Olaf Scholz sagði í dag að Evrópu­sam­bandið myndi svara harð­lega ef Trump setur tolla á evrópskar vörur. Hann lagði áherslu á mikilvægi frjálsra við­skipta og varaði við neikvæðum áhrifum tolla­stefnu á báða aðila.

„Ef tolla­stefna gerir við­skipti erfiðari væri það slæmt fyrir Bandaríkin og slæmt fyrir Evrópu,“ sagði Scholz í Brussel en Financial Times greinir frá.

Hann ítrekaði að ESB væri sterkt efna­hags­svæði sem gæti brugðist við með eigin að­gerðum. „Við getum mótað okkar eigin stefnu og svarað tollum með tollum,“ sagði hann.

Scholz bætti við að Evrópa væri efna­hags­lega öflug og þótt sam­starf við Bandaríkin væri áfram í for­gangi væri sam­bandið einnig tengt við­skiptum um allan heim.

„Við getum átt við­skipti við allan heiminn,“ sagði Scholz.