Bandarísk yfirvöld hafa bætt nokkrum tæknifyrirtækjum inn á lista yfir fyrirtæki sem þau segja að vinni með kínverska hernum. Þar á meðal er tæknirisinn Tencent, sem rekur samfélagsmiðilinn WeChat.

Listinn virkar sem viðvörun til bandarískra fyrirtækja og stofnana um þá áhættu sem stafa af því að eiga viðskipti við kínverska aðila.

Þó svo að fyrirtæki endi inn á þennan lista þýðir það ekki viðskiptabann, heldur eykur það aðeins þrýsting á bandaríska fjármálaráðuneytið til að beita þeim fyrirtækjum refsingu. Tencent hefur þá neitað öllum tengslum við kínverska herinn.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið gefur út þennan lista en hann er formlega þekktur sem Section 1250H-listinn. Hann er uppfærður á hverju ári og inniheldur nú 134 fyrirtæki.