Bandaríkin hafa ákveðið að leggja tolla á gullstangir sem vega yfir einu kílói og 100 únsu stangir (um 3,1 kíló). Þetta eru algengustu stærðirnar á Comex, stærsta gullafleiðumarkaði heims, og mynda stóran hluta gullútflutnings Sviss til Bandaríkjanna.
Ákvörðunin felur í sér að þessar stærðir gullstanga falla nú undir tollaflokk sem ber innflutningstolla, í stað tollfrjálsrar flokkunar sem margir í greininni höfðu gert ráð fyrir.
Tollflokkunin kemur í kjölfar þess að Bandaríkin hækkuðu almenna innflutningstolla á vörur frá Sviss í 39% í síðustu viku en gull er ein helsta útflutningsvara Sviss til Bandaríkjanna.
Christoph Wild, forseti samtaka svissneskra framleiðenda eðalmálma, segir að þessi ákvörðun sé „annað áfall“ fyrir gullviðskipti milli landanna og muni gera það erfiðara fyrir að anna eftirspurn eftir gulli á bandaríska markaðnum.
Alþjóðlegt gullflæði fylgir yfirleitt þríhyrndu mynstri: stórar 400 únsu stangir (um 12,4 kíló) fara milli London og New York, oft í gegnum Sviss, þar sem þær eru endurbræddar í aðrar stærðir.
London-markaðurinn notar 400 únsu stangir, á stærð við múrstein, en í New York eru vinsælastar stangir í kílóþyngd eða 100 únsur, sem eru á stærð við snjallsíma.
Þegar ríkisstjórn Trumps kynnti nýja innflutningstolla fyrr á árinu voru ákveðnar gullafurðir undanþegnar og margir túlkuðu það þannig að stærri stangir féllu þar undir.
Það varð til þess að gullkaupmenn fluttu inn metmagn af gulli til Bandaríkjanna áður en tollarnir tóku gildi, sem leiddi til tímabundins skorts í London.
Gullverð hefur hækkað um 27% frá áramótum og fór tímabundið í 3.500 Bandaríkjadali á únsu. Hækkunin skýrist meðal annars af verðbólguótta, áhyggjum af skuldastöðu ríkja og minnkandi hlutverki Bandaríkjadals sem alþjóðlegs varagjaldmiðils.
Sviss flutti gull til Bandaríkjanna að verðmæti 61,5 milljarða dala á tólf mánuðum fram í júní. Með 39% tollum bætast við um 24 milljarðar dala í tolla á sama magn.
Flokkunarkerfi fyrir mismunandi gullafurðir hefur skapað óvissu í greininni. Margar svissneskar gullhreinsistöðvar hafa leitað til lögfræðinga til að fá skýringar á því hvaða vörur geta notið undanþágu. Tvær þeirra hafa tímabundið dregið úr eða stöðvað sendingar til Bandaríkjanna á meðan beðið er nánari útskýringa.
Wild segir að óljós flokkun geti tafið viðskipti og aukið óvissu á markaðnum.