Lachlan Murdoch, forstjóri Fox Corporation, var að sögn Financial Times óvenjuléttur í gærmorgun er hann átti símtal við greinendur og fjárfesta um afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi.
Að sögn Lachlan, sem er sonur fjölmiðlamógúlsins Rupert Murdoch, sló svokallað „pólitískt“ tekjustreymi met í yfirstandandi forsetakosningum.
„Ég biðst afsökunar ef einhver var að reyna horfa á fótboltaleiki helgarinnar og fékk holskeflu af kosningaauglýsingum yfir sig,“ sagði Lachlan léttur að sögn FT.
Tekjustreymið var þó ekki það eina sem gladdi Lachlan en hann sagði að áhorfið á Fox News, fréttastöð samstæðunnar, hefði einnig verið í methæðum.
Fréttastöðin Fox News hefur átt erfitt uppdráttar á síðustu árum en reiðir stuðningsmenn Trump hafa hótað að sniðganga stöðina en þá þurfti fréttastöðin einnig að greiða milljarða dala sekt vegna umfjöllunar sinnar í kjölfar forsetakosninganna 2020.
Stærsta stjarna stjónvarpstöðvarinnar Tucker Carlson var einnig rekinn og þá hafa vinsældir kapalsjónvarps farið dvínandi á síðustu árum.
„Í þessum kosningum hafa Bandaríkjamenn horft meira á Fox News en aðrar sjónvarpsstöðvar,“ sagði Lachlan.
Á þriðja ársfjórðungi var Fox News vinsælasta kapalsjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum.
Olympíuleikarnir í París á NBC var það eina sem fékk meiri áhorf á fjórðungnum.
Hlutabréfaverð Fox hefur hækkað um 50% á árinu og er markaðsvirði félagsins um 18 milljarðar Bandaríkjadala um þessar mundir.