Fyrirtæki og hagsmunahópar í Bandaríkjunum hafa eytt rúmlega tveimur milljónum dala undanfarna sex mánuði í sjónvarpsauglýsingar á einu tilteknu svæði í Flórída, West Palm Beach.

Að sögn WSJ eru hin umræddu fyrirtæki að reyna að ná til eins áhorfenda, Donalds Trumps, en sveitasetur forsetans, Mar-a-Lago, er staðsett í West Palm Beach.

Nýlega birtist til að mynda auglýsing sem sýndi frá ræðu Trump þar sem hann lofaði að hafa umsjón með lækningu við krabbameini og Alzheimer. Auglýsingin var frá hagsmunasamtökum sem hafa tengsl við bandaríska lyfjaiðnaðinn og voru að leitast við að fella úr gildi lyfjaverðlagningarstefnu sem samþykkt var á tímabili Joe Biden.

Bílaframleiðendur hafa einnig verið að svara tollastríði forsetans með auglýsingum þar sem þeir virðast ávarpa forsetann beint með því að hvetja til nýsköpunar og bandarískrar framleiðslu.

Fyrirtæki og hagsmunahópar telja að stuðningur Trumps geti eitt og sér ráðið úrslitum um forgangsröðun í Washington og þar sem forsetinn ferðast oft til Mar-a-Lago á fjáröflunarfundi eða til að spila golf hefur sjónvarpsauglýsingatími þar orðið mjög aðlaðandi.