Fyrr í dag var greint frá því á vef Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja að félagsmenn hefðu fellt kjarasamning samtakanna og SA sem undirritaður var í byrjun maí.
„Þá liggur niðurstaðan fyrir, samningurinn felldur og kemur ekki á óvart. Algert skilningsleysi atvinnurekenda á kröfum um styttingu vinnutíma skiptir eflaust miklu máli í þessari niðurstöðu,” skrifaði Ari Skúlason, formaður SSF, á heimasíðu félagsins.
Á heimasíðu SSF var greint frá því að kjörsókn hafi verið 76,1%. Af þeim sem kusu samþykktu 1292 félagsmenn samninginn á meðan 1322 félagsmenn höfnuðu honum. Þá tóku 107 ekki afstöðu.
Samkvæmt þeim var samningurinn felldur með 30 atkvæðum.
Það hins vegar er það svo að meirihluta þarf til að fella samninginn. Þar sem 3,93% taka ekki afstöðu og 47,48% segja já er þeim meirihluta ekki náð þó svo að fleiri greiddu atkvæði á móti en með.
Því er ekki nóg að 48,59% þeirra sem kusu hafi hafnað samningnum og telst hann því samþykktur.
SSF fjarlægði fréttina af vefsíðu sinni og er von á tilkynningu frá samtökunum síðar í dag.