Kosningabarátta Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, til embættis forseta Íslands kostaði 57 milljónir króna samkvæmt nýbirtu uppgjöri á vefsíðu Ríkisendurskoðunar.

Ljóst er að kosningabarátta Katrínar kostaði tvöfalt meira en kosningabarátta Höllu Tómasdóttur sem hafði sigur úr býtum í forsetakosningunum í byrjun sumars.

Framlög til kosningabaráttu Katrínar námu 50 milljónum króna. Þar af voru framlög frá lögaðilum 8,6 milljónir króna og framlög frá einstaklingum um 41,6 milljónir. Eigin framlög Katrínar námu 3 milljónum króna.

Kosningabarátta Katrínar varði 26,5 milljónum króna í auglýsingar og kynningarkostnað, 11,9 milljónir í rekstur kosningaskrifstofu og 8,7 milljónir í fundi og ferðakostnað. Þá var annar kostaður 10,3 milljónir.