Leikfangaframleiðandinn Mattel tilkynnti í vikunni að fyrirtækið muni setja á markað fyrstu Barbie-dúkkuna með sykursýki eitt, langvarandi sjúkdóm sem veldur því að líkaminn framleiðir ekki neitt eða nægilega mikið magn af insúlíni.

Good Morning America greindi frá þessu en nýja dúkkan verður með blóðsykurmæli, insúlíndælu og tveimur lækningatækjum sem dúkkan klæðist.

Krista Berger, framkvæmdastjóri Barbie, segir að dúkkan marki mikilvægt skref í skuldbindingu fyrirtækisins í fjölbreytni.

„Barbie hjálpar við að móta sýn barna á heiminum og með því að endurspegla sjúkdóma eins og sykursýki eitt tryggjum við að fleiri börn geti séð sig í sögunum sem þau búa til með myndunarafli sínu og í gegnum dúkkurnar sem þau elska.“

Mattel hannaði dúkkuna í samstarfi við góðgerðarstofnunina Breakthrough T1D og verður dúkkan hluti af Fashionista-línu leikfangafyrirtækisins.