Baugur hefur samþykkt að kaupa 50% hlut í danska tísku- og heimilisvörufyrirtækinu Day Birger et Mikkelsen, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðins, og reiknað er með að kaupin verði formlega tilkynnt á næstu dögum. Kaupverðið hefur ekki fengist staðfest.

Kaupin á hlut í danska fyrirtækinu koma í kjölfar fjárfestinga Baugs í bresku hönnunarfyrirtækjunum Matthew Williamson og PPQ, sem gerð voru í gegnum nýjan sjóð félagins, Venture Business Unit (VBU). Ekki er vitað hvort kaupin á Day eru gerð í gegnum VBU, sem er stýrt frá London.

Heimildamenn Viðskiptablaðsins segja fjárfestingar Baugs í upprennandi tískuvörumerkjum koma í kjölfar kaupa félagsins á stórvöruverslunum, en ásamt fleiri fjárfestum lauk fyrirtækið nýlega við 75 milljarða króna yfirtöku á bresku stórverslunarkeðjunni House of Fraser. Baugur hefur einnig fjárfest í dönsku stórverslununum Magasin du Nord og Illums, en félagið hefur flutt bresku vörumerkin Hamleys og Jane Norman yfir til stórverslana sinna í Danmörku.

Talið er að Baugur stefni að því að opna Day-verslun í House of Fraser, en félagið opnaði eigin verslun á Sloane-stræti árið 2005. Day er með verslanir í Magasin-verslunum Baugs víða í Danmörku. Day-verslanir eru einnig starfræktar í bresku stórverslununum Selfridges, Harvey Nichols og Liberty.