Leiðandi hagvísir Analytica hélt áfram að lækka í júnímánuði. Hagvísirinn, sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum, hefur nú lækkað samfellt síðastliðna tólf mánuði.

„Þróun einstakra undirþátta hefur verið að festa sig í sessi í þá veru að benda til minni vaxtar eða samdráttar. Lengd lækkunartímabilsins undanfarið bendir til dökknandi horfa næstu mánuði,“ segir í frétt á vef ráðgjafar- og greiningarfyrirtækisins.

Analytica segir að tölur Hagstofu Íslands um landsframleiðslu á fyrsta fjórðungi ársins og síðustu tvo fjórðunga síðasta árs bendi til að merki um minni vöxt eða mögulegan samdrátt sé að ganga eftir.

Þrír af sex undirliðum hagvísisins lækka milli mánaða. Lækkun á væntingavísitölu Gallup hafði mest að segja sem og samdráttur vöruinnflutnings og minni fjölgun ferðamanna en áður. Analytica segir að áfram sé umtalsverð óvissa tengd þróun alþjóðastjórnmála og í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi.

Mynd tekin af heimasíðu Analytica.