Euro Economics Commercial Properties ApS., félag danska milljarðamæringsins Bo Bendt­sen, tapaði 235 milljónum danskra króna, eða um 4,5 milljörðum ís­lenskra króna, í fyrra.

Tap Bendt­sen, sem byggði auðæfi sín á fjár­festingu í Just Eat, kemur að mestu vegna fjár­festinga hans í líf­gas­fyrir­tækinu Biocirc, sem hefur verið í kastljósi danskra fjölmiðla vegna mikilla innan­búðará­taka.

Sam­kvæmt ný­birtum árs­reikningi er tap félagsins um þre­falt meira en árið á undan. Eigið fé félagsins hefur þurrkast út og er neikvætt um 46 milljónir danskra króna, saman­borið við jákvætt eigið fé upp á 189 milljónir danskra árið áður.

Í skýrslu stjórn­enda kemur fram að gert sé ráð fyrir að endur­reisa eigið fé með framtíðar­hagnaði og auknu inn­streymi fjár­magns.

Bendt­sen er stór hlut­hafi í Biocirc, sem hefur lýst metnaðar­fullum áformum um að verða stærsta líf­gas­fyrir­tæki heims.

Á fyrri hluta árs 2025 brutust út átök innan stjórnar Biocirc þegar meiri­hluti hennar, þar á meðal danski land­búnaðar­risinn DLG, reyndi að reka for­stjórann Bertel Maiga­ard vegna óreiðu í stjórnun fyrir­tækisins.

Bendt­sen studdi hins vegar for­stjórann og neitaði að samþykkja brott­reksturinn.

Með stuðningi hans tapaði DLG völdum í stjórninni og Maiga­ard hélt stöðu sinni. DLG svaraði með því að af­skrifa eignar­hlut sinn í Biocirc um tugi milljóna danskra króna í árs­reikningi sínum fyrir 2024.

Í kjölfarið sagði Niels Dengsø, stjórnar­for­maður DLG, af sér með þeim rökum að átökin í kringum Biocirc hefðu haft áhrif á heilsu hans og hann þyrfti að hlífa sér.

Fjár­festingar Bo Bendt­sens í grænum verk­efnum hafa reynst dýr­keyptar en samkvæmt Finans eru nú spurninga­merki um áfram­haldandi burði hans til að fjár­magna metnaðar­full áform í Biocirc.

Engin viðbrögð hafa fengist frá bræðrunum Bendt­sen við um­fjöllun danska fjölmiðilsins Finans, en ljóst er að þrýstingur eykst á af­komu og rekstrar­grund­völl viðkvæmra líf­gas­verk­efna.