Benedikt Sveinsson, lögmaður og athafnamaður í Garðabæ, lést á þriðjudagskvöld, 86 ára gamall.
Morgunblaðið greinir frá andláti Benedikts en þar er ævi og störf hans rakin. Benedikt stundaði lögmennsku og skipasölu um árabil, naut mikils trausts í viðskiptalífi og var einn elsti forystumaður í íslensku athafnalífi um áratugaskeið.
Benedikt sat í stjórnum fjölmargra fyrirtækja á ferlinum meðal annars Sjóvá, síðar Sjóvá-Almennar, Eimskip, Burðarás, Flugleiðir, Marel, SR mjöl, Granda og Nesskip.
Hann var einnig virkur í félagsstörfum og tók þátt í örri uppbyggingu Garðabæjar. Benedikt var formaður sjálfstæðisfélags Garða- og Bessastaðahrepps 1973-75, í skólanefnd Garðabæjar 1974-86 og bæjarfulltrúi í Garðabæ 1986-98, þar af oddviti meirihlutans og atkvæðamikill formaður bæjarráðs í tíu ár.
Hann gekk í Rótarýklúbbinn Görðum 1976 og var virkur félagi í hreyfingunni alla starfsævi sína.
Morgunblaðið rekur ættir Benedikts en foreldrar hans voru Sveinn Benediktsson (1905-1979), framkvæmdastjóri í Reykjavík, og Helga Ingimundardóttir (1914-2008), húsmóðir. Sveinn var sonur Benedikts Sveinssonar þingforseta (1877-1954) og kvenskörungsins Guðrúnar Pétursdóttur frá Engey (1878-1963).
Meðal systkina Sveins má nefna dr. Bjarna forsætisráðherra og Pétur bankastjóra, en einn bræðra Helgu var Einar sýslumaður og alþingismaður. Systkini Benedikts eru Ingimundur arkitekt, Guðrún lögfræðingur og Einar forstjóri.
Eftirlifandi eiginkona Benedikts er Guðríður Jónsdóttir og varð þeim þriggja sona auðið. Þeir eru Sveinn tölvunarfræðingur, Jón rafmagnsverkfræðingur og Bjarni, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Barnabörn Benedikts og Guðríðar eru átta og barnabarnabörn fjögur.