Markaðir lækkuðu við opnun í New York í morgun sem var þvert á við gang mála í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum í gær og í dag.

Að mati Bloomberg fréttaveitunnar kemur lækkunin til í kjölfar orða Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna þar sem hann viðurkenndi í morgun í fyrsta skipti að samdráttur væri í hagkerfi landsins.

Nú hafa markaðir hins vegar tekið sér eftir að Bernanke fullyrti að hann ætti ekki von á því að Seðlabanki Bandaríkjanna þyrfti að „bjarga“ fleiri bönkum líkt og gerðist með Bear Stearns um miðjan mars.

Bankar og fjármálafyrirtæki hafa tekið viðsnúning og leiða nú hækkanir á mörkuðum.

Þá hefur jákvætt uppgjör Best Buy einnig haft nokkur áhrif á markaði að mati Bloomberg.

Nasdaq hefur hækkað um 0,5% eftir að hafa lækkað um 0,3% í morgun.

Dow Jones dansar við núllið og hefur nú lækkað um 0,04% en hafði fyrir stundu hækkað um 0,4%.

S&P 500 hefur hækkað um 0,2% eftir að hafa lækkað um 0,4% í morgun.