Milljarðamæringurinn og vogunarsjóðsstjórinn Scott Bessent er samkvæmt Financial Times langlíklegastur til að verða næsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna en hann er að sögn viðskiptamiðilsins byrjaður að leita að aðstoðarmanni.
Bessent var efnahagsráðgjafi Trump í kosningabaráttunni en hann styrkti einnig baráttuna fjárhagslega.
Í samtali við CNBC degi eftir kosningarnar sagði Bessent að hann hafi ekki átt nein samtöl við Trump um að verða fjármálaráðherra en heimildarmenn FT segja það ljóst að hann muni vera í stóru hlutverki í næstu ríkisstjórn.
„Ég mun gera það sem Trump forseti biður um,“ sagði Bessent við CNBC er hann var spurður um hvort hann yrði ráðherra í næstu ríkisstjórn.
Bessent stofnaði og rekur Key Square Capital Management en þar áður vann hann hjá Soros Fund Management sem fjárfestirinn George Soros stofnaði.
Bessent efnaðist á tíunda áratug síðustu aldar er hann og George Soros veðjuðu gegn breska pundinu og japanska jeninu árið 1992.
Bessent sagði starfi sínu lausu hjá Soros árið 2000 og fór í einkarekstur. Hann stórgræddi aftur árið 2013 með því að skortselja jenið.
Samkvæmt Financial Times styður Bessent heilshugar efnahagsaðgerðir Trump, þar á meðal að leggja tolla á innfluttar vörur.
Aðrir sem koma einnig til greina sem næsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna samkvæmt FT eru:
- John Paulson, milljarðamæringur, sjóðsstjóri og fjárhagslegur styrktaraðili framboðs Trump.
- Robert Lightizer, fyrrum viðskiptaráðherra Bandaríkjanna.
- Þingmaðurinn Bill Hagerty sem var sendiherra Trump í Japan í fyrstu ríkisstjórn Trump.