Tæknifyrirtæki halda áfram að vera áberandi í efstu sætum á lista yfir 250 fyrirtæki í Bandaríkjunum sem þykir vera best stjórnað.
Á nýútkomnum lista fyrir yfirstandandi ár hirðir Apple toppsætið af Microsoft, sem fellur niður um tvö sæti niður í það þriðja. Nvidia er í öðru sæti og Intel fjórða. Tvö önnur tæknifyrirtæki eru á meðal tíu efstu fyrirtækja en það eru Alphabet, móðurfélag Google, í áttunda sæti og Adobe í níunda sæti.
Fyrrnefnda félagið féll niður um fjögur sæti frá fyrra ári meðan það síðarnefnda klifraði upp um tíu sæti.
Umræddur listi yfir fyrirtækin 250 sem þykir best stjórnað byggir á kenningum Peter Drucker, eins dáðasta stjórnunarsérfræðings sögunnar.
Í ár voru 842 fyrirtæki metin í fimm flokkum; ánægja viðskiptavina, nýsköpun, samfélagsleg ábyrgð, ánægja og þróun starfsmanna og fjárhagslegur styrkur. Tölfræðilíkan listans var hannað af vísindamönnum við Drucker Institute hjá Claremont Graduate University.