Lyfjaver, sem rekur apótek að Suðurlandsbraut 22, hagnaðist um 89 milljónir króna eftir skatta í fyrra, samanborið við tæplega 40 milljóna króna tap árið 2022. Árið 2023 var besta rekstrarár í sögu félagsins sem var stofnað árið 1998.
Velta Lyfjavers jókst um 11,8% milli ára og nam 3,9 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) fór úr 125 milljónum í 281 milljón milli ára. Ársverk voru óbreytt í 55.
„Félagið hefur undanfarin ár lagt verulega fjármuni í þróunarstarf. Rekstur félagsins árinu bar þess skýrt merki að þeir fjármunir sem lagðir hafa verið í þróunarstarf undanfarin ár séu farnir að skila sér til baka í formi aukinna viðskipta og rekstrarhagræðingar. Gert er ráð fyrir að sú þróun muni halda áfram næstu ár,” segir í skýrslu stjórnar.
Lyfjaver kveðst vera brautryðjandi tölvustýrðrar lyfjaskömmtunar (vélskömmtunar) hér á landi. Auk þess að reka apótek á Suðurlandsbraut – sem Lyfjaver segir vera eina apótekið á Íslandi sem noti nýjustu vélmennatækni við lagerhald og afgreiðslu lyfja – þá rekur félagið netverslun með lyf, heildsölu og dreifingarfyrirtæki.
Eignir félagsins voru bókfærðar á ríflega 1,5 milljarða króna í árslok 2023 og eigið fé var um 353 milljónir.
Friðrik Steinn Kristjánsson er stjórnarformaður Lyfjavers, sem er í 91,29% eigu Silfurbergs og 8,71% eigu Eurogen Pharma Pte. Ltd.. Silfurberg er í eigu Friðriks Steins og Ingibjargar Jónsdóttur, sem fara með helmingshlut hvort.