Saltkaup hagnaðist um tæplega 29 milljónir króna á síðasta ári en árið áður skilaði félagið 133 milljóna króna hagnaði. Rekstrartekjur námu 987 milljónum króna og drógust saman um 183 milljónir króna frá fyrra ári. Rekstrargjöld námu 951 milljón og drógust saman um 67 milljónir frá árinu áður. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda nam 36 milljónum króna, samanborið við 152 milljónir króna árið áður.
Í ársreikningi félagsins kemur fram að stjórn leggi til að greiddar verði 40 milljónir króna í arð til hluthafa á yfirstandandi ári vegna rekstrarársins 2021. Enginn arður var greiddur út úr félaginu í fyrra en árið áður voru 300 milljónir greiddar til eigenda vegna rekstrarársins 2019.
Hilmar Þór Hilmarsson, framkvæmdastjóri Saltkaups, segir árið 2021 hafa verið nokkuð erfitt ár. Ástandið í heimshagkerfinu, svo sem hökt í aðfangakeðjum og fleiri hnökrar hafi verið þess valdandi. „Við þurftum að glíma við miklar verðhækkanir innan ýmissa kostnaðarliða fyrirtækisins og munaði þar mest um miklar verðhækkanir á flutningskostnaði. Covid-19 heimsfaraldurinn og miklar olíuverðshækkanir voru helstu ástæður þessara verðhækkana, sem voru ansi ófyrirséðar. Við höfum aldrei áður lent í öðrum eins verðhækkunum.“
Þrátt fyrir þetta hafi fyrirtækinu tekist að skila ágætis afkomu. „Þetta er sterkt og flott fyrirtæki sem stendur traustum fótum en maður hefði samt viljað sjá betri tölur. Við getum þó verið þokkalega sátt við árangurinn í ljósi fyrrnefndra verðhækkana,“ segir Hilmar.
Flutningsmálin áfram erfið
Spurður um hvernig rekstur félagsins hafi gengið á yfirstandandi ári, segir Hilmar það enn vera að kljást við þessar erfiðu ytri aðstæður sem lýst er að ofan. Þá hafi innrás Rússa inn í Úkraínu gert ytri aðstæður enn meira krefjandi en áður. „Þessi krísa er enn í gangi. Það er til nóg salt í heiminum en flutningamálin hafa eins og fyrr segir gert okkur lífið leitt. Við vonumst til að ná ásættanlegri niðurstöðu á þessu ári í mjög erfiðu rekstrarumhverfi. Við stöndum þetta af okkur og vonum að það rofi til fyrr en síðar í heimsmálunum og betra jafnvægi náist.“
Þrátt fyrir fyrrnefndar áskoranir í heimshagkerfinu er Hilmar bjartsýnn fyrir framtíð félagsins. „Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Við erum langstærsti þjónustuaðili íslenskrar fiskvinnslu á saltmarkaði. Með minni kvóta getum við reiknað með að fiskvinnslur þurfi á minna salti að halda en blessunarlega er ennþá nóg til af félögum sem eru öflug í saltfiskvinnslu. Við trúum því að svo verði áfram.“
Hann bendir á að fyrirtæki nái ekki góðum árangri öðruvísi en með góðu starfsfólki og með því að bjóða upp á gæðavörur. „Starfsfólk Saltkaups er frábært og saltið sem við seljum sömuleiðis. Þetta tvennt er grunnur alls.“
Hilmar hefur stýrt félaginu frá því í lok árs 2009. „Þetta hefur verið skemmtilegur tími og gaman að sjá hvað fyrirtækið hefur eflst mikið á þessum tæplega níu árum.“
Komin aftur á upphafspunktinn
Saltkaup er rótgróið fyrirtæki sem var stofnað árið 1990 og var upphaflegur tilgangur þess að flytja inn salt sem svo var selt í fiskvinnslu og til þeirra sem sjá um að salta göturnar. „Seinna meir útvíkkaði félagið þjónustuframboð sitt og veitti umbúðaþjónustu fyrir alla atvinnustarfsemi. Í ársbyrjun 2019 var félaginu svo skipt upp og á meðan saltinnflutningur og þjónusta er áfram undir Saltkaup ehf., er umbúðahlutinn og önnur starfsemi nú undir öðru félagi sem heitir BEWI Iceland ehf. Það má því segja að í dag séum við aftur komin á upphafspunktinn og einblínum á að selja salt fyrir matvælaiðnað og sem notað er sem hálkuvörn á göturnar,“ útskýrir Hilmar. Félagið var stofnað af saltfiskframleiðendum og var framan af í eigu Íslendinga. En árið 2017 festi norska félagið GC Rieber Salt AS kaup á Saltkaup.
Viðtalið birtist í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.