Hlutabréf bandaríska matvælaframleiðandans Beyond Meat hafa þegar þetta er skrifað hækkað um 67% í verði á síðustu tveimur dögum eftir að félagið birti sitt fyrsta ársfjórðungsuppgjör sem skráð félag en fyrirtækið var skráð á markað þann 1. maí síðastliðinn. Beyond Meat framleiðir afurðir sem líkjast kjöti en eru gerðar úr plöntum og er fyrirtækið það fyrsta sinnar tegundar sem skráð er á hlutabréfamarkað.

Útboðsgengi félagsins nam 25 dollurum á hlut en er nú 167 dollarar á hlut og hefur því ríflega sexfaldast á rúmum mánuði. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að tekjur ársins verði um 210 milljónir dollara en markaðsvirði þess nemur nú um 10 milljörðum. Það gerir það að verkum að markaðsverðmæti sem hlutfall af sölu er um 47 en meðaltal hlutfallsins í matvælageiranum er í kring um 2.

Hefur þetta meðal annars orðið til þess að margir fjárfestar hafa tekið skortstöðu í félaginu því þrátt fyrir 215% tekjuvöxt á fyrsta ársfjórðungi enda telja þeir að félagið sé allt of hátt verðlagt. Af þeim hlutabréfum sem eru fljótandi á markaði er skortstaða með 51% þeirra. Hefur það eflaust haft sitt að segja í hækkunum á bréfum Beyond Meat að svokölluð „short squeeze" staða hefur myndast fyrir marga fjárfesta þar sem þeir hafa nánast verið tilneyddir til að loka skortstöðum sínum vegna mikils taps á þeim. Þegar framboðið af bréfum er lítið verður sú staða til þess að hlutabréfaverð ýtist upp eftir því sem fleiri loka stöðum sínum og er því í raun um keðjuverkun að ræða.