Kóralar hafa tekið að blómstra á ný á Bikiníeyjum, fimmtíu árum eftir að síðustu kjarnorkusprengjurnar dundu, ef marka má nýjustu rannsóknir vísindamanna.
Yfirvöld á Bikiníeyjum stóðu fyrir rannsóknunum en teymi vísindamanna frá Austurríki, Þýskalandi, Ítalíu, Havaíeyjum og Marshall-eyjum hefur undanfarið rannsakað lífríki hafsins í kringum eyjarnar.
Bravo-sprengjan frá 1954, sem var þúsund sinnum öflugri en sprengjan sem varpað var á Hírósíma, gjöreyddi þremur eyjum og skildi eftir sig gíg með tveggja kílómetra þvermáli.
Vísindamennirnir sögðu ótrúlegt hve miklum landvinningum kóralar hefðu náð á ný á svæðinu, þrátt fyrir að um 42 tegundir hafi orðið útdauðar vegna kjarnorkutilraunanna, segir í frétt Environmental News Service.