Bílaumboðið Una ehf, systurfélag Bílaumboðsins Öskju, hefur skrifað undir samning við bílaframleiðandann XPENG og þannig tryggt sér sölu- og dreifingarrétt á Íslandi.
XPENG er kínverskur rafbílaframleiðandi en höfuðstöðvar XPENG í Evrópu eru í Amsterdam. Félagið hefur nú þegar opnað söluumboð í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.
Volkswagen Group fjárfesti nýlega 700 milljónum dollara í XPENG en það hyggst nýta sér tækni þess til að flýta fyrir innleiðingu nýrra bíla undir sínu merki í Kína. XPENG seldi 150.000 bíla á síðasta ári og hyggst auka framleiðslugetu sína í allt að 500.000 bíla á ári.
XPENG er 10 ára gamalt fyrirtæki sem framleiðir eingöngu rafmagnsbíla en fyrirtækið hefur einnig vakið mikla athygli fyrir þróun sína á fljúgandi bílum.
Bílaumboðið Una er systurfélag Bílaumboðsins Öskju og 100% í eigu Vekru sem er móðurfélag þeirra beggja. Rafbílar eru nú stærsti hluti seldra bíla og spáð er frekari aukningu á næstu árum.
„XPENG er gríðarlega spennandi framleiðandi sem við höfum verið að skoða í langan tíma. Vörulína þeirra passar vel inn á íslenskan markað þar sem áherslan er lögð á millistóra og stóra fjórhjóladrifna jepplinga,“ segir Þorgeir R. Pálsson framkvæmdastjóri Unu.