Hanna Björg Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri Hótels Hafnar, birti færslu á Facebook-síðunni Bakland Ferðaþjónustunnar í dag þar sem hún varar við tveimur óprúttnum einstaklingum sem heimsóttu hótelið.
Í færslunni segir hún að einstaklingarnir, sem voru ekki gestir á hótelinu, hafi mætt á hótelið og gengið upp á svefnherbergjagang.
Parið mun þá hafa valið sér herbergisnúmer til að taka með niður á veitingastað þar sem það pantaði sér mat og drykk og setti reikninginn síðan á herbergisnúmerið áður en þau létu sig hverfa.
Hanna segir í samtali við Viðskiptablaðið að atvikið hafi átt sér stað í gærkvöldi og fyrir starfsfólk var parið eins og hver annar gestur. Hótelið var þar að auki fullbókað og með 60 herbergi er nánast ómögulegt að þekkja hvern og einn gest.
„Það sem við sáum eftir á, við skoðun í eftirlitskerfi hótelsins, er að maðurinn byrjar á því að leggja í stæði sem er lengst frá hótelinu svo ekki sæist í bílnúmer eða bílategund við skoðun á kerfinu.“
Hún segir að maðurinn hafi síðan gengið beint upp á svefnherbergjagang á annarri hæð, beygt sig niður og þóttist reima skóna sína á meðan hann skannaði ganginn.
„Svo röltir hann niður á veitingastaðinn og gefur sig á tal við þjóninn. Hann spyr hvort hægt sé að fá vínflösku til þess að taka upp á herbergi og hvort það væri laust borð. Honum var tjáð að við værum ekki með laust borð sem stendur en hann gæti athugað aftur eftir klukkutíma.“

Hanna segir að hann hafi síðan tekið flöskuna, tvö glös og fór að ganga í átt að herberginu en gekk rakleiðis út þegar þjónninn snéri sér að öðrum gesti. Móttakan hafi ekki kippt sér við þetta þar sem önnur bygging hótelsins er hinum megin við götuna.
„Eftir klukkutíma koma þau saman inn á veitingastaðinn og fá borð. Þau panta sér mat og drykk og þegar það kemur að því að ganga frá reikningnum slær hann á brjóst sér eins og hann sé í leit að veskinu en biður svo um að setja þetta á herbergið og gefur upp númerið sem hann valdi sér fyrr um kvöldið.“
Verkferlar hótelsins eru með þeim hætti að gestur eigi að sýna lykil sinn þegar reikningur er settur á herbergið og kvitta svo undir. Það hafi hins vegar verið það mikið að gera þetta kvöld að þjónninn hafi gleymt þessu skrefi og lét duga að fá herbergisnúmer. Hanna segir að starfsmaður hafi þar að auki verið nýr og enn í þjálfun.
„Því miður er þetta ekki einsdæmi um svik og munu alltaf vera rotin epli inn á milli en sem betur fer þá eru þau ekki mörg,“ segir Hanna.