Gengi Bitcoin hækkaði um nokkur prósent í kjölfar þess að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fór þess á leit við eftirlitsstofnanir að skoða tækifæri og hættur sem rafmyntir hafa í för með sér. Er hluti af því að kanna hvort ástæða sé fyrir Seðlabanka Bandaríkjanna að setja á fót rafdollara. Reuters greinir frá.
Þykir sumum þessi tilmæli Bidens benda til þess að rafmyntir festi sig í sessi sem hluti af bandarísku hagkerfi.
Munu tilmæli forsetans einnig fela í sér að fjármálaeftirlitið, viðskiptaráðuneytið og fleiri lykilstofnanir búi til skýrslur þar sem farið verði yfir framtíð peninga og hvaða hlutverk rafmyntir hafi þar að gegna.
Hvíta húsið hefur um nokkurt skeið haft uppi áform um að taka rafmyntamarkaðinn til gagngerrar endurskoðunar og sníða lagaumhverfi í kringum markaðinn, til þess að draga úr hættunni á fjárglæpum.