Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur blásið á gagnrýni á hugmyndir hans um að slíta ÍL-sjóði, gamla Íbúðalánasjóði. „Það er ótrúleg afbökun á stöðu málsins að segja mig ætla að seilast í sparnað almennings með því að taka á vanda ÍL-sjóðs,“ segir Bjarni í færslu á Facebook.
Hann vísar þar til ummæla Davíðs Rúdólfssonar, forstöðumanns eignastýringar hjá Gildi lífeyrissjóði í Morgunblaðinu í dag.
„Málið er sett fram af fjármálaráðherra eins og hann sé að gera landsmönnum einhvern greiða með þessum gjörningi. Í raun og veru er ríkissjóður með þessu að reyna að fara í vasa almennings. Þetta er tilraun til þess að ganga í sparnað almennings, sparnað sem sem liggur í lífeyrissjóðum og verðbréfasjóðum sem eru í eigu landsmanna,“ sagði Davíð.
Á fimmtudaginn kynnti Bjarni skýrslu um stöðu ÍL sjóðs. Í henni kemur fram að til að reka ÍL-sjóð út líftíma skulda þyrfti ríkissjóður að leggja honum til um 450 milljarða króna eða um 200 milljarða að núvirði. Ef sjóðnum væri hins vegar slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða og þar með kostnaður ríkissjóðs nema 47 milljörðum.
Í kynningu Bjarna eru settir fram þrír valkostir sem ríkissjóður er sagður standa frammi fyrir við úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs. Þeirra á meðal er að knúin verði fram gjaldþrotaskipti með lagasetningu.
„Þessi hótun um að beita lagasetningarvaldi Alþingis til að keyra ÍL-sjóð í þrot er til þess fallin að rýra traust og trúverðugleika ríkissjóðs fram á veginn. Þessi vegferð er líklega til að draga úr trausti fjármálamarkaðarins á öllum framtíðarútgáfum með ábyrgð ríkissjóðs,“ sagði Davíð við Morgunblaðið.
Bjarni svarar gagnrýninni og segir mikilvægt að rétt sé farið með staðreyndir í umfjöllun um stöðu ÍL-sjóðs. Ríkissjóðir sé í einfaldri ábyrgð fyrir skuldum sjóðsins og krafa um að ríkissjóðir gangi í sjálfskuldarábyrgð byggi ekki á lögum.
„Öllu er snúið á hvolf með því að segja það aðför að sparnaði. Krafan um að ríkissjóður gangi í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum ÍL-sjóðs byggir ekki á lögum, og er í reynd krafa fyrir hönd afmarkaðs hóps á hendur öllum almenningi um að ábyrgð ríksins verði útvíkkuð og þessu risastóra máli sópað undir teppið. Það væri engum til góðs,“ skrifar Bjarni.
Hann segir að það sé með hagsmuni almennings, ríkissjóðs og framtíðar skattgreiðenda sem hann setji málið á dagskrá Alþingis. Umræða um ÍL-sjóðs skýrsluna fer fram á Alþingi á þriðjudag.
Þrír slæmir kostir
Bjarni lýsir því að gróft séð standi ríkissjóður frammi fyrir þremur slæmum kostum.
„Sá fyrsti er að gera ekkert. Það mun lenda harkalega á ríkissjóði þegar fram í sækir og líkt og sjá má af viðvarandi halla sjóðsins bætist við vandann á hverju ári. Það stríðir því augljóslega gegn hagsmunum almennings að aðhafast ekkert.
Annar valkosturinn er að grípa til ráðstafana, horfast í augu við vandann og fá uppgjör á þessum skuldum og ábyrgð ríkisins. Með því fengju allir kröfuhafar að fullu greitt, höfuðstól og áfallna vexti, og þetta vandamál hætti að vinda upp á sig. Þetta væri hægt að gera með sérstakri lagasetningu sem stefndi að slitum á ÍL-sjóði. Hér er lykilatriði að ábyrgð ríkisins er svokölluð einföld ábyrgð, ef skuldarinn getur ekki staðið í skilum borgar ríkið höfuðstól og áfallna vexti. Uppgjör á sér stað. Ríkið stendur að fullu við sínar skuldbindingar.
Þriðji kosturinn er sá sem ég hef mælt með á þessu stigi, að taka upp viðræður við kröfuhafa ÍL-sjóðs með það að markmiði að ná samkomulagi um framvinduna. Eftir atvikum getur það orðið grunnur að frumvarpi um slit sjóðsins sem færi fyrir Alþingi og myndi enda með fullnaðaruppgjöri miðað við stöðuna eins og hún er í dag.“