Fyrir ári tók mikill fjöldi almennra fjárfesta vestanhafs sig til og keypti hlutabréf í bandarísku verslanakeðjunni GameStop í stórum stíl með tilheyrandi hækkunum á gengi hlutabréfa fyrirtækisins. Kaupin vöktu heimsathygli enda var aðdragandinn óvenjulegur: Þátttakendur á spjallborði á samfélagsmiðlinum Reddit komu sér saman um að kaupa upp hlutabréf Gamestop og þrengja þar með að vogunarsjóðum sem höfðu tekið skortstöðu í fyrirtækinu.

Jarmhlutabréfin í brennidepli

Viðskiptin leiddu til þess að hugtakið jarmhlutabréf (e. meme stocks) varð á hvers manns vörum og beindi kastljósinu að vaxandi þátttöku almennings á hlutabréfamarkaðnum meðan heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Atvinnulausir og fólk sem þurfti að halda sig heima vegna sóttvarnaaðgerða fór í vaxandi mæli að taka þátt á markaðnum meðal annars í krafti aukinna ráðstöfunartekna vegna mótvægisaðgerða stjórnvalda í Washington D.C sökum efnahagsáhrifa faraldursins.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Árið 2021 einkenndist af miklum hækkunum á hlutabréfamörkuðum, lækkun ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði og mikilli áhættusækni fjárfesta. Lágvaxtastefna helstu seðlabanka heims ásamt magnbundinni inngripum studdi við þessa þróun. En síðustu mánuðum ársins tók að syrta í álinn og vísbendingar um vaxandi verðbólgu tóku að hrannast upp.  Á sama tíma fór að bera á aukinni skjálftavirkni á mörkuðum. Í fyrstu var titringsins fyrst og fremst vart á markaðnum með rafmyntir á borð við bitcoin en þegar líða tók á veturinn gætti hans á öðrum mörkuðum.

Hafi einhverjir haft væntingar í ársbyrjun um að 2022 myndi fara mjúkum höndum um fjárfesta líkt og árið á undan brustu þær þegar líða tók á janúarmánuð. Þá lýsti Jay Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, því yfir að verðbólgavandinn væri slíkur að vaxtahækkanir yrðu ekki umflúnar. Á sama tíma tilkynnti bandaríski seðlabankinn að hann myndi draga úr magnbundinni íhlutun á markaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .