Sakfelling Bjarna Ármannssonar, fyrir meiriháttar skattalagabrot árið 2014, stendur ekki lengur. Mál hans var endurupptekið með úrskurði Endurupptökudóms í ársbyrjun og vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar í gær.
Áður hafði Mannréttindadómstóll Evrópu dæmt í máli Bjarna og komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð hefði brotið gegn ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um bann gegn tvöfaldri refsingu fyrir sama brot.
Í ofangreindum dómi Hæstiréttar var Bjarni dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi, auk þess sem honum var gert að greiða 36 milljónir króna í sekt.
Fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu hélt Bjarni því fram að með því að sekta hann fyrir að hafa ekki greitt skatta vegna söluhagnaðar hlutabréfa í Glitni þegar hann hætti sem bankastjóri, og síðar sækja hann til saka fyrir sama mál, væri brotið á mannréttindum hans.
Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sagði að ríkið hafi brotið gegn 4. grein mannréttindasáttmálans fyrir að hafa dæmt hann tvívegis fyrir sama málið, og dæmdi honum 5 þúsund evra skaðabætur og 29.800 evra málskostnað.
Í dómsorðum Hæstaréttar kemur fram að allur sakarkostnaður málsins vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda Bjarna, Garðars Valdimarssonar lögmanns, tæplega 2,7 milljónir króna. Þá greiðist allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda Bjarna, Stefáns Geirs Þórissonar lögmanns, hálf milljón króna.
Þar sem fyrri dómur stendur ekki fær Bjarni auk þess sektarfjárhæðina, 36 milljónir króna, endurgreidda.