Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins féllu í skaut Livar Bergþórsdóttur forstjóra Nova. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra afhenti verðlaunin á Hótel Sögu 30. desember síðastliðinn og hélt ræðu af því tilefni.
Í ræðu Bjarna var honum tíðrætt um mikilvægi hins frjálsa markaðar og öflugrar samkeppni og hrósaði Nova í hástert fyrir góðan árangur á árinu.
„Manni er hugsað til þess að stundum er horft til innlenda markaðarins að hér sé allt í föstum skorðum,“ sagði Bjarni í ræðunni. „Hvort sem talað er um tryggingamarkaðinn, olíumarkaðinn og fjarskiptamarkaðinn. Vegna þess að fólk telur aðgangshindranir hér vera svo miklar að það sé ekki hægt að ná árangri nema með því að taka einhvern yfir. Ég held að Nova sé sönnun hins öndverða.“
Bjarni vék einnig að stöðu Íslands í efnahagsmálum og kjaraviðræðum.
„Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að feta slóð efnahagsbata af ákveðinni varfærni en um leið með bjartsýni og trú á framtíðina í huga. Staðan er sú í dag að við erum að upplifa sterka viðspyrnu, hraðan efnahagslegan bata og sömuleiðis að sjá ríkisfjármálin þróast með jákvæðum hætti. Það eru engu að síður merki um að ekki sé allt eins og það á að vera. Það að við tökum út kauphækkanir langt fram úr það sem framleiðni er að vaxa í landinu er viðvörunamerki. Það hvernig kjarabaráttan fór fram er viðvörunarmerki ... Eins vil ég segja sem fjármála- og efnahagsráðherra að mér finnst kröfurnar á ríkið vera á köflum algjörlega óraunhæfar. Einnig finnst mér hugmyndir okkar Íslendinga stundum um hlutverk ríkisins vera dálítið fjarstæðukenndar. Krafan um að ríkið leysi alla hluti er ennþá of hávær. Við eigum kannski frekar að horfa til þess hvað getur gerst ef við búum til regluverk og umhverfi fyrir þá sem að hafa dug og þor til að stíga fram eins og þeir sem við erum að viðurkenna hér í dag,“ sagði Bjarni.
Hægt er að hlusta á ræðu Bjarna í spilaranum hér fyrir ofan.