„Væri ekki ágætt að setja þetta fordæmi? Væri það ekki einmitt mjög gott að menn skildu það að þegar settir eru upp sjóðir með ríkisábyrgð þá skiptir máli hvaða áhætta felst í stofnun slíkra fyrirbæra? Ég held að það væri mjög jákvætt,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um möguleikann á að ÍL-sjóði verði slitið með lagasetningu og höfuðstóll ríkistryggðra útistandandi skuldabréfa hans gerður upp með eingreiðslu.
„Það slær þá kannski á væntingarnar um það að ríkið komi alltaf og leysi hvers manns vanda. Mér heyrist að sumir séu þeirrar skoðunar að úr því sem komið er verði ríkið bara að útvíkka ábyrgð sína og byrja að greiða inn á þetta 200 milljarða vandamál. Ég held að það væri slæmt fordæmi.“
Vonar að fjárfestar skoði reikningana vel
Bjarni segir ekkert mat hafa verið lagt á hugsanleg áhrif á fjármögnunargetu og -kjör einstakra stofnana á borð við Byggðastofnun, sem fjármagnar lánveitingar sínar með útgáfu skuldabréfa sem skráð eru í Kauphöllina og bera einfalda ríkisábyrgð.
Hann segist ekki geta tjáð sig um þann möguleika og leggur ekki mat á þær forsendur sem markaðsaðilar hafi gefið sér við verðlagningu þeirra bréfa hvað ríkisábyrgðina varðar.
„Ég vona bara að þeir sem hafa verið að fjármagna Byggðastofnun hafi skoðað reikninga Byggðastofnunar og velt fyrir sér greiðslufallsáhættunni og eðli ábyrgðarinnar á bak við slík bréf.“
Nánar er rætt við Bjarna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.