Bjarni Benediktsson hefur svarað Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmanni Viðreisnar, sem furðaði sig fyrr í dag á viðbragðstíma fjármálaráðherra vegna ÍL-sjóðs og forvera hans Íbúðalánasjóðs.
Þorbjörg sagði í færslu á Facebook að staða sjóðsins hafi legið fyrir árum saman og vísaði til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð frá árinu 2013. „Fjármálaráðherra hefur einmitt setið í embætti frá 2013. Hann hefur haft tæpan áratug til að draga úr tjóni almennings,“ skrifaði Þorbjörg. Hún bætti við að þriggja ára skoðun fjármálaráðuneytisins á stöðu ÍL-sjóðs hafi kostað tugi milljarða. „Dýrasti fjármálaráðherra Íslandssögunnar?“ skrifaði Þorbjörg.
Bjarni bendir á í athugasemd undir færslu Þorbjargar að ÍL-sjóður hafi ekki verið stofnaður fyrr en árið 2020. Fram til þess tíma hafi forveri hans Íbúðalánasjóður verið með sjálfstæða stjórn og heyrt undir félagsmálaráðuneytið.
„Þetta verkefni hefur því ekki verið hjá fjármálaráðuneytinu þann tíma sem þú gefur þér. Á hinn bóginn hefur staða sjóðsins lengi legið fyrir og öllum, þ.m.t. þingmönnum Viðreisnar, frjálst að leggja til að leysa vandann, stöðva frekari uppsöfnun áhættu,“ skrifar Bjarni.
„Kannast ekki við að hafa séð tillögur í því efni, en það var við því að búast, að þegar bent er á ábyrga leið kæmi einhver og segði: hvers vegna gerðir þú þetta ekki fyrr!“
Á sama spjallþræði bendir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður úr röðum Sjálfstæðisflokksins, á að Þorsteinn Víglundsson, þáverandi þingmaður Viðreisnar, hafi verið framsögumaður þingnefndar sem fjallaði um frumvarp um stofnun ÍL-sjóðsins á Alþingi á sínum tíma.
Þorsteinn hafi flutt málefnalega ræðu um málið þrátt fyrir að hafa verið í stjórnarandstöðu „án ásakana á borð við þær sem Þorbjörg Sigríður flytur út í bláinn," segir Björn.
„Hún varð þingmaður þegar Þorsteinn sagði af sér þingmennsku í apríl 2020 og heldur greinilega að stjórnmálasagan hafi þá hafist og henni sé frjálst að segja það sem henni dettur í hug hverju sinni í von um að komast í fréttir.“