Guðni Bergsson tók nýverið við starfi formanns KSÍ, eftir það sem mörgum þótti hörð kosningabarátta við Björn Einarsson. Kosningabáráttan vakti athygli margra en sjálfur segist Guðni ekki líta svo á að hún hafi verið sérstaklega óvægin.
„Nei en ég held að hún hafi verið snörp og jafnvel hörð á köflum. Það var aðeins tekist á um nálgun á því hvort formaður ætti að vera starfandi eða ekki og við vorum með mismunandi áherslur ég og Björn. En ég held að kosningabaráttan hafi verið mjög holl og góð fyrir hreyfinguna sem slíka enda fór af stað mikil umræða og vangaveltur um íslenskan fótbolta. Þó að ég og Björn höfum vissulega aðeins verið að takast á og jafnvel kýta í viðtölum þá gátum við hlegið og spjallað saman eins og ágætis kunningjar sem við erum um leið og það var slökkt á myndavélunum og hljóðnemum. Fólk var eðlilega ekki á einu máli og sum félögin studdu Björn og önnur mig en svona fór þetta. En ég held að heilt yfir þá hafi það verið hollt fyrir hreyfinguna að fá þessa umræðu og kosningu um formann.“
Guðni segist ekki hafa orðið var við annað en að sátt hafi náðst um hann sem formann eftir að kosningunni lauk. „Já, ég verð ekki var við annað, ef einhverjir eru ónægðir þá eru þeir allavega ekki að tala mikið við mig og það verður bara mitt verk að vinna veg fótboltans sem mestan sem og að vinna fyrir hreyfinguna alla og aðildarfélögin, vera sýnilegur og gera mitt besta. Mér finnst þetta spennandi og verðugt verkefni og í raun er það áskorun sem felst í því að vera á eins góðum stað og raun ber vitni. Ég horfi keikur fram á veginn og hlakka til að vinna hérna áfram.“
Býst við góðum fréttum
Það vakti mikla athygli í fyrra þegar það fréttist að tölvuleikjaframleiðandinn EA Sports hefði leitast eftir því við KSÍ að Íslenska landsliðið yrði hluti af tölvuleiknum heimsfræga FIFA 17. Þá vakti það enn meiri athygli, og vonbrigði hjá mörgum, þegar Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, sagðist hafa hafnað tilboðinu þar sem EA Sports hefðu ekki boðið nægilega háar upphæðir fyrir réttindin. Það eru því eflaust margir sem bíða spenntir eftir því hvort Íslenska landsliðið verði hluti af FIFA 18.
„Ég er að vinna í þessum málum einmitt þessa stundina og ég er bjartsýnn á að við náum að segja góðar fréttir hvað þetta varðar von bráðar,“ segir Guðni.
Viðtalið við Guðna Bergsson má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.