Fyrirtækið Helgafellsbyggingar í Mosfellsbæ eru nú farnar að bjóða áhugasömum lóðakaupendum upp á vaxtalaus lán vegna lóðakaupa og sveigjanlega greiðsluskilmála.
Þeir sem kaupa lóðir borga aðeins 10% útborgun í tvennu lagi á sex mánuðum. Þá þurfa þeir ekki að greiða meira af lóðinni fyrr en eftir tvö ár og er 90% af lóðaverðinu lánað vaxtalaust í tvö ár.
Hannes Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Helgafellsbygginga, segir að með þessu sé komið í veg fyrir að fólk lendi í þeirri óþægilegu stöðu að þurfa að borga af tveimur eignum samtímis.
„Þetta er hugmynd sem kom upp hjá okkur um að koma lífi í markaðinn. Bankarnir eru ekki að lána og það er allt hálf frosið. Þá er ótti fólks mikill við að fjárfesta í lóðum eða íbúðum vegna þess að það treystir því ekki að geta selt gömlu íbúðirnar sínar. Með því að bjóða vaxtalaus lán sem ekki þarf að byrja að borga af fyrr en íbúðin selst, teljum við okkur vera að skera á þennan hnút.“
______________________________________
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .