Glitnir HoldCo hefur verið sýknað af riftunarkröfu þrotabú Mainsee Holding ehf. Þetta var kveðið upp í Héraðsdóm í dag en Mainsee er gert að greiða Glitni 4,5 milljónir króna í málskostnað
Mainsee krafðist þess að rift verði greiðslu félagsins á skuld við Glitni HoldCo að fjárhæð 6,7 milljónir evra, um milljarður íslenskra króna, sem fram fór með yfirtöku Glitnis á kröfu Mainsee á hendur Salt Investment ehf.
Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Sjá einnig: Róbert hafi ekki gert sitt upp sjálfur
Skiptastjóri búsins, Sveinn Andri Sveinsson, taldi að uppfyllt væru skilyrði almennu riftunarreglunnar í gjaldþrotaskiptalögunum. Um ótilhlýðilegan gjörning hafi verið að ræða og Glitni sem kröfuhafa til verulegra hagsbóta. Þá var það mat skiptastjórans að gjörningurinn hafi einnig komið Róberti Wessmann vel eða til lækkunar sjálfsábyrgðarskuldar hans. Á móti hafi helmingur kröfunnar ekki komið til lækkunar sjálfsábyrgðar Björgólfs.
Að mati dómsins þá sýndu gögn málsins að Glitnir hafi talið umrædda kröfu á hendur Salt Investments ehf. vera verðlausa þegar ráðstöfunin fór fram. Það mat eigi sér stoð í ársreikningum Salt Investments ehf. en samkvæmt ársreikningi 2010 var eigið fé neikvætt um 14.615 milljónir króna í árslok, tap á rekstri félagsins nam 2.069 milljónum króna, sjóðstreymi frá rekstri var neikvætt um 190 milljónir króna.
Að sama skapi telur dómurinn gögn málsins sýna að rétt hafi verið að telja kröfuna verðlausa á þeim tíma sem um ræðir. Sú staðreynd að krafan var engu að síður nýtt til lækkunar á umræddri skuld Mainsee Holding ehf. vegna lánsins frá 6. september 2007 getur ekki stutt að um ótilhlýðilega ráðstöfun hafi verið að ræða, enda gat þetta ekki leitt til tjóns fyrir félagið eða kröfuhafa þess.
Var við þessar aðstæður ekkert athugavert við að framselja kröfuna gegn greiðslu með skuldajöfnuði sem nam bókfærðu virði hennar. Að þessu virtu, sem og aðstæðum í heild sinni, getur dómurinn ekki fallist á að um óvenjulega ráðstöfun hafi verið að ræða sem aðilar í sömu stöðu hefðu ekki gripið til. Þá fá röksemdir stefnanda um að einhvers konar annarlegar hvatir hafi búið að baki ráðstöfuninni hvorki stoð í gögnum málsins né skýrslum fyrir dómi. Riftunarkröfu þrotabús Mainsee var því hafnað.
Þrotabúið var dæmt til að greiða Glitni 4,5 milljón króna í málskostnað en rekstur dómsmálsins var fjármagnaður af Björgólfi Thor.