Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona greiðir 420 milljónir króna fyrir Ægisíðu 80, 426 fermetra einbýlishús á þremur hæðum í Vesturbæ Reykjavíkur. Viðskiptablaðið greindi frá kaupunum í byrjun október en þau eru nú frágengin samkvæmt þinglýstum kaupsamningi og er eignin því orðin meðal dýrustu einbýlishúsa landsins.
Sjá einnig: Björk kaupir hús á 420 milljónir
Sigvaldi Thordarson teiknaði húsið en það er byggt árið 1958 og er ytra útlit þess friðað. Bent var í fasteignauglýsingu eignarinnar að hússins hafi víða verið getið í umfjöllun um íslenska byggingarlist enda „hannað út í hörgul í fallegum og hreinum stíl".
Sjá einnig: Þakíbúð Bjarkar til sölu á milljarð
Björk kaupir húsið af Guðbjörgu Sigurðardóttur kvikmyndaframleiðanda. Skrifað var undir kaupsamning 21. október og var kaupsamningurinn sendur inn til þinglýsingar um miðjan desembermánuð. Fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2022 er 234 milljónir króna.
Hægt er að skoða myndir af húsinu hér .