Íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið Akthelia hefur náð athyglisverðum árangri í lyfjaþróun sem byggir á rannsóknum á bakteríudrepandi peptíðum. Um er að ræða stuttar prótínkeðjur sem gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfi mannsins.
Lyfjaþróun félagsins byggir á vinnu Guðmundar Hrafns Guðmundssonar, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Eiríks Steingrímssonar, prófessors við Læknadeild, ásamt samstarfsfélögum þeirra við Karolinskastofnunina í Svíþjóð.
Félagið er með einkaleyfi á efnaflokki sem örvar meðfædda ónæmiskerfið og hefur jafnframt bólgueyðandi áhrif, sem gerir lyfin gagnleg gegn fjölbreyttum bakteríusýkingum og bólgusjúkdómum eins og Crohn’s sjúkdómnum.
Akthelia er að hefja fjármögnunarferli til að fjármagna klínískar rannsóknir, á þróun nýs lyfs sem hefur sýnt lofandi niðurstöður í rannsóknum á dýrum.
Lífmerki í krabbameinsmeðferðum
Á undanförnum átján mánuðum hafa vísindamenn Akthelia rannsakað svokölluð lífmerki (e. translational biomarkers) um sýkingar sem eiga sér stað í krabbameinsmeðferðum. Þannig er hægt að mæla hvenær fólk í krabbameinsmeðferð er í áhættu með að fá sýkingar og hvenær hættan er liðin hjá.
Lífmerkið er aminósýran „citrulline“, sem fæst í gegnum mat, þá aðallega vatnsmelónur, en er einnig framleitt sem fæðubótarefni.
Citrulline er framleitt af þekjufrumum í meltingarvegi og mælt í blóði. Það gefur vísbendingar um heilsu þekjunnar í meltingarveginum. Heilbrigðar frumur framleiða citrulline sem berst í blóðið, en ef þekjan verður fyrir áverkum dregst framleiðsla þess saman marktækt. Því er lækkun á magni citrulline í blóði sterkt merki um mögulega blóðsýkingu. Fyrir Akthelia þýðir þetta að hægt er að mæla virkni efna félagsins með einfaldri blóðprufu sem einfaldar allar tilraunir.
„Þegar magn citrulline í blóði fellur mikið saman, og jafnvel hverfur í ákveðnum krabbameinsmeðferðum, eykst hættan á blóðsýkingum verulega. Bakteríur í meltingarveginum geta þá auðveldlega farið út í blóðrásina og fjölgað sér hratt.
Búið er að sýna fram á það, bæði í mönnum og dýrum, að þetta lífmerki, amínósýrur í blóði, er mjög góð vísbending um ástand þekjunnar í meltingarvegi,“ útskýrir Egill Másson, framkvæmdastjóri Akthelia.
Björt framtíð í líftækni á Íslandi
Akthelia hefur fengið til liðs við sig helstu sérfræðinga heims á sviði krabbameinslækninga og bakteríusýkinga. Egill segir að nýstárlegar aðferðir félagsins í meðhöndlun þessara sjúkdóma hafi fengið góðar viðtökur frá læknum sem starfa á stórum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum og Evrópu.
„Á síðustu 25 til 30 árum hefur lítil sem engin þróun átt sér stað í lyfjaþróun varðandi meðhöndlun aukaverkana krabbameinsmeðferða,“ útskýrir Egill.
Egill bætir við:
„Ísland býr yfir einstökum tækifærum í líftækni og frumlyfjaþróun. Þetta er einn áfangi í líftæknibyltingunni sem á sér stað hér á landi. Við teljum að Ísland standi sterkt í líftækni í samanburði við aðrar þjóðir og það er bjart yfir líftæknigeiranum á Íslandi.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.